Kortlagning rannsóknainnviða hafin  

Samstarfsverkefni háskóla og rannsóknastofnana um kortlagningu rannsóknainnviða er farið af stað með innleiðingu hugbúnaðarkerfisins Clustermarket á Íslandi. Það byggir á stefnu stjórnvalda og Innviðasjóðs um opið aðgengi að rannsóknarinnviðum.

Vísindagarðar fengu það hlutverk að stýra samstarfsverkefni háskóla og rannsóknastofnana á Íslandi um kortlagningu sérhæfðra rannsóknainnviða landsins. Framtíðarsýnin er að allir helstu rannsóknarinnviðir á Íslandi verði skráðir í Clustermarket.

Kortlagning rannsóknainnviða á Íslandi er hafin með innleiðingu Clustermarket, nýs miðlægs kerfis sem heldur utan um skráningu á og aðgengi að innviðunum. Þetta er nútímaleg skýjalausn sem stuðlar að bættri yfirsýn yfir rannsóknartæki á landinu og aukinni samnýtingu þeirra. Kortlagningin er partur af samstarfsverkefni sem fjármagnað er úr Samstarfsjóði Háskólanna hjá Háskóla-, vísinda- og nýsköpunarráðuneytinu. Þátttakendur eru  Háskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík, Háskólinn á Akureyri, Listaháskóli Íslands, Landbúnaðarháskóli Íslands, Háskólinn á Hólum,  Landspítalinn, Matís og Tæknisetur. Vísindagarðar fara með verkefnastjórnun.

Vísinda- og nýsköpunarráð hefur lagt áherslu á skráningu innviða á Íslandi og opið aðgengi að þeim, sem er í takt við stefnu stjórnvalda og Innviðasjóðs.

Miðlægt skráning rannsóknainnviða á Íslandi

„Þetta breytir umhverfinu til hins betra og hjálpar til við skilvirkan rekstur tækjanna. Það hefur ekki verið til miðlægur gagnagrunnur áður,“ segir Gísli Karl Gíslason, verkefnastjóri hjá Vísindagörðum Háskóla Íslands, sem heldur utan um innleiðingu Clustermarket og kortlagningu rannsóknainnviða.

Gísli Karl Gíslason, verkefnastjóri hjá Vísindagörðum að skoða tækjabúnað í heimsókn hjá Lífvísindasetri.

Kortlagning rannsóknainnviða tengist fyrirhugaðri byggingu rannsókna- og djúptækniseturs á svæði Vísindagarða í Vatnsmýri.

Aðlögun að íslenskum aðstæðum

Vísindagarðar vinna náið með íslenskum stofnunum til að aðlaga kerfið að íslenskum vinnubrögðum og veita öllum hagsmunaaðilum fullan stuðning við að nýta lausnina.

Til að mynda er nú hægt að gera tæki aðgengileg fyrir notendur utan rannsóknastofnana, sem hvetur til samnýtingar og eykur nýtingu þeirra rannsóknainnviða sem fyrir eru á landinu.

„Við sjáum fram á að það verði komnir yfir þúsund notendur eftir um tvö ár,“ segir Gísli en dæmigerðir notendur eru til dæmis þeir nemendur og starfsmenn háskólanna á Íslandi sem stunda rannsóknir.

Innleiðing Clustermarket stuðlar að lækkun rekstrarkostnaðar rannsóknartækja.

Aukinn sýnileiki og bætt aðgengi rannsóknar innviða er mikið hagsmunamál bæði fyrir innviðanotendur sem og eigendur innviða.  Vegvísa áhersla innviðasjóðs hefur haft mjög jákvæð áhrif á samtal og forgangsröðun dýrra rannsóknarinnviða og sameiginlegt átak um innleiðingu á Clustermarket er næsta stóra skref í þessa átt en það mun veita yfirsýn yfir öll helstu rannsóknartæki háskóla og rannsóknarstofnana auk þess sem fyrirtæki og aðrir eigendur rannsóknarinnviða geta einnig skráð inn sín tæki og búnað ef þau kjósa. Tæknisetur hefur hafið innleiðingu á Clustermarket og hefur það gengið vel, einn af helstu kostum Clustermarket er nefnilega hversu notendaviðmótið er þægilegt.  Við erum þegar farin að nota hugbúnaðinn innanhúss og er áformað að opna á ytri notendur í byrjun næsta árs.

Betra upplýsingaflæði, samstarf og samnýting rannsóknainnviða.

Markmiðið er að allir helstu rannsóknainnviðir á Íslandi verði skráðir í hugbúnaðinn Clustermarket og að allar upplýsingar verði aðgengilegar bæði innri og ytri hagaðilum. Þessi kortlagning mun nýtast mjög vel frumkvöðlum, vísindamönnum og rekstri rannsóknasetra á höfuðborgarsvæðinu og um land allt.

Tengja má Clustermarket við önnur kerfi eins og fjármálakerfi eða gagnagreiningartól og fæst betri yfirsýn yfir kostnað og notkun tækjanna. Markaðstorg Clustermarket gerir svo háskólum og stofnunum kleift á einfaldan hátt að sjá hvaða tæki og innviðir eru til staðar hjá hvort öðru sem ýtir undir frekari samvinnu á milli þessara aðila. Með því að nýta betur tækjabúnað og skrá hann miðlægt í Clustermarket, er hægt að auka framleiðni.

Í undirbúningi er bygging svokallaðs Djúptæknisetur á Vísindagörðum. Þar verða hýst ýmis tæki og búnaður og vinnuaðstaða fyrir vísindamenn, nemendur, frumkvöðla, sprotafyrirtæki og fleiri í samstarfi við háskóla, fyrirtæki og samfélagið almennt. Samstarfsvettvangur aðila til rannsókna og nýsköpunar, og jafnvel kaupa á dýrum tækjabúnaði, getur nýst mörgum til bæði grunnrannsókna og það sem kallað hefur verið hagnýtra rannsókna, segir Gísli K. Gíslason verkefnastjóri hjá Vísindagörðum.

Nánari upplýsingar um verkefnið veitir Gísli K. Gíslason (gisli@visindagardar.is)

Kerfið gerir rannsóknaraðilum kleift að bóka tæki og þjónustur á fljótlegan og öruggan hátt.

Forrige
Forrige

Vilt þú koma í starfsnám hjá Vísindagörðum HÍ ?

Næste
Næste

Spennandi tækifæri fyrir fyrirtæki í Mýrinni