Vísindaþorp leysi krafta úr læðingi
Sigurður Magnús Garðarsson, stjórnarformaður Vísindagarða, segir mikla uppbyggingu fyrirhugaða á svæðinu á næstu árum. Meðal annars muni Alvotech reisa viðbót við núverandi hátæknisetur sitt og verða með rúmlega 500 starfsmenn í tveimur byggingum. Þá muni nýjasta byggingin, stórhýsið Gróska, verða segull fyrir nýsköpun og sprotafyrirtæki.
Vísindagarðar eru sunnan við Norræna húsið í Vatnsmýri í Reykjavík. Hús Íslenskrar erfðagreiningar er elsta húsið á svæðinu en það var vígt árið 2002. Fjórtán árum síðar, eða í júní 2016, tók Alvotech hátæknisetur í notkun á vestari enda svæðisins. Á þessu ári tóku Stúdentagarðar svo í notkun Mýrargarð, stærstu stúdentagarða landsins. Byggingin rúmar 300 nemendur og er 14 þúsund fermetrar á fimm hæðum, auk bílakjallara. Þá er verið að taka Grósku-hugmyndahús í notkun en húsið er 17.500 fermetrar auk bílakjallara, eða alls 34 þúsund fermetrar. Tölvuleikjaframleiðandinn CCP flutti höfuðstöðvar sínar í húsið í júní síðastliðnum og þar var opnað frumkvöðlasetur á vegum Vísindagarða í nóvember. Að sögn Sigurðar Magnúsar hafa verið byggðir um 53 þúsund fermetrar ofanjarðar á svæðinu. Það sé um helmingur áætlaðs byggingarmagns. Við það bætast bílakjallarar undir húsunum.
Kostar 50-70 milljarða
Miðað við að fermetrinn kosti 500-700 þúsund kostar uppbyggingin 50-70 milljarða. Hér á opnunni má sjá yfirlitskort af svæðinu með frekari upplýsingum um uppbygginguna. Vísindagarðar eiga jafnframt lóð undir 20 þúsund fermetra byggingar suður af fyrirhuguðum meðferðarkjarna Landspítalans, en lóðin er austur af Læknagarði og við Hringbraut. Þar eru áform um heilbrigðistengda starfsemi.
Félagið leigir lóðirnar
Félagið Vísindagarðar er í eigu Háskóla Íslands, sem á 94,6% hlut í félaginu, og Reykjavíkurborgar, sem á 5,4% hlut. Félagið á lóðirnar á svæðinu, ásamt húsi Íslenskrar erfðagreiningar, en félagið keypti það hús árið 2014 með forkaupsrétti. Félagið Vísindagarðar ehf. leigir lóðirnar og skipuleggur svæðið í samstarfi við skipulagsyfirvöld en leigutakar byggja húsin, ef frá er talinn fyrirhugaður kjarni við Jónasartorg. Félagið velur fyrirtæki og rannsóknarstofnanir inn á svæðið en sú stefna skýrir hvers vegna það selur ekki lóðirnar. Fyrirtækin þurfa þannig að uppfylla ýmis skilyrði til að fá lóðir. Má þar nefna nýsköpun, tengsl við Háskóla Íslands og alþjóðlegar tengingar við atvinnulíf og rannsóknir. „Ef fyrirtækin vilja laða til sín erlent toppfólk er mikill styrkur að vera nálægt miðbæ og háskólaumhverfi. Það er enda umhverfið sem slíkt fólk á að venjast ytra. Uppbygging fjölda íbúða í nágrenni flugvallarins og þróun borgarlínu munu jafnframt styrkja svæðið,“ segir Sigurður Magnús um Vísindagarða. Hann segir aðspurður að kórónuveirufaraldurinn hafi haft lítil áhrif á framtíðarsýn verkefnisins, ef frá séu taldar óverulegar tafir á framkvæmdum í Grósku. Hins vegar eigi eftir að koma í ljós hvort faraldurinn muni auka vægi fjarvinnu varanlega, eða hafa önnur ófyrirséð áhrif til frambúðar.
Eflir háskólann og atvinnulífið
Sigurður Magnús, sem jafnframt er Forseti verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands, segir hugmyndinni að Vísindagörðum hafa verið ýtt úr vör árið 2004 eftir talsvert langan undirbúningstíma. „Borgin lét Háskóla Íslands þetta landsvæði í té með því skilyrði að það yrði nýtt í þessa þágu. Það má segja að hús Íslenskrar erfðagreiningar hafi verið undanfari þessarar uppbyggingar. Háskólinn er í miklu og góðu samstarfi við atvinnulífið og hefur alltaf haft það að markmiði að efla það. Hugmyndin að Vísindagörðum er svo sem gömul en henni var hleypt af stokkunum í þessu formi árið 2004. Þá stofnaði Háskóli Íslands eignarhaldsfélagið Vísindagarðar Háskóla Íslands og hóf að þróa svæðið og vinna að deiliskipulagningu þess. Vísindagarðar eru alþjóðlegt fyrirbæri og eru við marga erlenda háskóla. Það má nefna háskóla eins og MIT og Harvard sem hafa mjög öfluga vísindagarða og það má kannski segja að Kísildalur sé risastór vísindagarður. Þá má nefna að Vísindagarðar eru virkir þátttakendur í alþjóðlegum samtökum vísindagarða (IASP). Vísindagarðar eru gjarnan lykilþáttur í tengingu við atvinnulífið og er Háskóli Íslands því ekki að finna upp hjólið í þessum efnum. Páll Skúlason heitinn vann að hugmyndinni [sem rektor] með þetta í huga og svo tók Kristín Ingólfsdóttir verkefnið tveimur höndum en hjá þeim fór hugmyndin að mótast og Jón Atli Benediktsson, núverandi rektor, hefur svo þróað það áfram.“
“Fyrirtækin vilja gjarnan vera staðsett nálægt háskólanum til að geta laðað til sín fólk meðan það er í námi. Þegar það útskrifast gengur það svo tilbúið inn í umhverfið, sem er einmitt það sem fyrirtækin sækjast eftir.”
Nokkrar lóðir lausar
Spurður um næstu skref í uppbyggingunni segir Sigurður Magnús að stjórnendur Alvotech muni á næstu vikum taka skóflustungu að 10 þúsund fermetra viðbót við núverandi hátæknisetur sitt (á lóð númer 7) við Sæmundargötu, og þar verður m.a. rannsóknar- og þróunardeild fyrirtækisins. Háskóli Íslands verði einnig með rannsóknarstofur í húsinu fyrir iðnaðarlíftækni og tengda starfsemi og þá hafi Alvotech styrkt stofnun námsleiðar í iðnaðarlíftækni og lagt fram kennslukrafta og aðstöðu fyrir verkefni framhaldsnema. Miðað við að framkvæmdin taki tvö ár verði þessi viðbót við hátæknisetrið tekin í notkun snemma árs 2023. „Hinar lóðirnar eru í raun lausar og við erum ekki með neitt fast í hendi með þær enn þá. Á lóð níu, milli Alvotech og Grósku, verður hugsanlega reist bygging fyrir menntavísindasvið Háskóla Íslands. Ef af yrði myndi sviðið, eitt fimm sviða háskólans, flytja úr Skaftahlíðinni í Vatnsmýrina. Háskóli Íslands og menntamálaráðherra undirrituðu viljayfirlýsingu um þessi áform fyrir um ári.“
Sprotafyrirtæki í Grósku
Sigurður Magnús segir Vísindagarða leggja áherslu á að fá sprotafyrirtæki inn í Grósku. Tölvuleikja- framleiðandinn CCP er kjarnafyrirtæki í Grósku en það flutti þangað frá Grandanum. Fyrirtækið er á einni hæð í húsinu. Nokkur sprotafyrirtæki eru þegar komin inn í sprotasetur Vísindagarða og má þar nefna GreenVolt, Evolve, Ferðaklasann, Miðstöð hönnunar og arkitektúrs og Nordverse. Þá kom Icelandic Startups í rýmið um síðustu mánaðarmót með sína öflugu starfsemi. Við ætlum þannig að draga inn lítil sprotafyrirtæki í Grósku sem eru kannski rétt að byrja á þróunarbrautinni. Við sjáum fyrir okkur að 30-40 smærri sprotar verði ýmist í skrifstofurými með föstum borðum eða með það sem við köllum laus borð í opnu rými. Einnig verður Háskóli Íslands með sérstakt rými fyrir [fólk sem hefur] tækifæri sem eru rétt að komast af rannsókna- og hugmyndastigi. Með því verður skapað flæði um húsið Síðan verður Gróska með fyrirtækjahótel og mun bjóða fyrirtækjum sem eru komin meðallangt á þróunarbrautinni að leigja aðstöðu og vera í samneyti við önnur fyrirtæki. Til dæmis ætlar fjártækniklasinn að koma þarna inn ásamt litlum fyrirtækjum í fjártæknigeiranum. Hugmyndin er að frumkvöðlar sem hafa lítið milli handanna geti komið ungir í húsið og svo þroskast í gegnum húsið og fært sig á milli staða, ef þeim vex fiskur um hrygg.“
Starfa á mörgum sviðum
Nú kom Íslensk erfðagreining á svæðið í byrjun aldarinnar er erfðafræðin var á allra vörum. Síðan kemur Alvotech með líftæknina fyrir fjórum árum og nú síðast CCP með tölvuleikina fyrr á þessu ári. Á hvaða öðrum sviðum sjáið þið tækifæri í framtíðinni? „Vísindagarðar hafa lagt áherslu á þróun upplýsingatækni en sú stefna fellur vel að starfseminni í Grósku. Tölvunarfræði Háskóla Íslands mun flytja í húsið og verða í spennandi nábýli við CCP og aðra upplýsingatækni- og fjártæknisprota sem verður gríðarlega spennandi fyrir nemendur okkar og rannsóknarhópa. Við hugsum okkur að upplýsingatæknin sé ein af þremur stoðum Vísindagarða.
Önnur stoðin er líftæknistoð hjá Alvotech og ekki síður Íslenskri erfðagreiningu. Íslensk erfðagreining er náttúrlega eitt öflugasta fyrirtæki heims á sínu sviði. Háskólinn hefur orðið talsverða starfsemi í húsi Íslenskrar erfðagreiningar og rekur þar lífvísindasetur, sem er mjög öflug eining, og verkefnið Blóðskimum til bjargar er til dæmis líka þar. Svo er Askja, þar sem háskólinn er með rannsóknarstofur í líffræði og lífefnafræði, á svæðinu og því má segja að það sé að myndast öflugur lífvísindakjarni á svæðinu. Þriðja stoðin er svo orka en þar erum við komin einna styst áleiðis. Áform um að fá fyrirtæki á sviði endurnýjanlegrar orku á svæðið eru enn á hugmyndastigi.“
Horfa til jarðhitans
Hefur komið til álita að flytja Orkugarða á Grensásvegi í Vísindagarða? „Það hefur ekki verið rætt formlega en auðvitað væri áhugavert að skoða að hafa ÍSOR nær okkur og sömuleiðis rannsóknarklasann GEORG í jarðhita en hann er einnig í Orkugarði. Það má svo einnig nefna að Nýsköpunarmiðstöð hefur verið lögð niður og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið er að velta fyrir Vísindaþorp leysi. „Endurnýjanleg orka er að verða æ mikilvægari sem lykilþáttur í baráttunni við loftslagsbreytingar. Íslendingar standa þar framarlega og því er kjörið tækifæri að tengja rannsóknir í háskólanum á því sviði við fyrirtæki sem eru að huga að þeim málum í gegnum vettvang eins og Vísindagarða.“ Hvaða ávinning hefðu orkufyrirtækin af því að koma í Vísindagarða? „Það væri tengingin við rannsóknir og þróun sem á sér stað innan háskólans og nálægð við önnur tæknifyrirtæki sem væru á Vísindagörðum á þessu sviði.“
Nálægðin skapar tækifæri
Hvernig laðið þið fyrirtæki í Vísindagarða? „Við vekjum athygli á því að hér er hægt að vera í mikilli nálægð við Háskóla Íslands og margt sem þar er í gangi. Skólinn er barmafullur af frjóum nemendum. Hann hefur orðið öflugt doktorsnám og marga nýdoktora sem eru í fremstu röð á ýmsum sviðum.
Eitt af því sem CCP horfði til er einmitt nábýlið við háskólann. Þótt CCP sé í tölvuleikjageiranum þarf fyrirtækið ekki aðeins forritara heldur þarf líka hönnuði, listamenn og fólk úr hugvísindum til að skapa þennan sýndarheim og samfélagið sem þar birtist. Af þessum ástæðum vildi CCP vera nálægt Háskóla Íslands. Fyrirtækin vilja gjarnan vera staðsett nálægt háskólanum til að geta laðað til sín fólk meðan það er í námi. Þegar það útskrifast gengur það svo tilbúið inn í umhverfið, sem er einmitt það sem fyrirtækin sækjast eftir.“
Jónasartorg í miðjunni
Sigurður Magnús segir Vísindagarða jafnframt undirbúa uppbyggingu við Jónasar Hallgrímssonar-torg á miðju svæðinu en það heitir eftir þjóðskáldinu. Áætlað er að sú bygging verði um sex þúsund fermetrar. „Hugmyndin er að Vísindagarðar Háskólans reisi hús á Jónasartorgi. Ætlunin er að húsið verði segull á miðju svæðinu og að þar verði fyrirlestrasalir, kennsla og aðstaða fyrir fólk í fyrirtækjunum í kring sem getur komið og borðað í hádeginu, hist og svo framvegis. Hugmyndin er að svæðið verði suðupottur og að fólk úr ólíkum áttum geti komið og hist, spjallað saman og vonandi búið til eitthvað nýtt og sniðugt sem ekki hefði orðið til annars. Háskólatorg er á vissan hátt slíkur staður en það er kannski meira ætlað nemendum. Það má kannski segja að Jónasartorg verði háskólatorg á sterum.“
Um 20 þúsund fermetra randbyggð
Fjórar lóðir í Vísindagörðum – lóðir númer 6, 9, 10 og 11 – eru lausar til umsóknar (sjá graf). Sem fyrr segir eru hugmyndir um menntavísindasvið Háskóla Íslands á lóð níu. Þá er um 20 þúsund fermetra randbyggð á lóð númer fimm, suður af fyrirhuguðum meðferðarkjarna við Landspítalann, enn á hugmyndastigi. En hvenær skyldi svæðið verða fullbyggt? „Við segjum því fyrr þeim mun betra. Ef svæðið verður fullbyggt að tíu árum liðnum yrðum við mjög kát.“
Listaháskólinn mögulega í Vatnsmýrina
Komið hefur til umræðu að starfsemi Listaháskóla Íslands flytjist í Vatnsmýrina. Nánar tiltekið á lóð austan við Öskju. „Það yrði gríðarlega spennandi að fá Listaháskólann svona nálægt bæði HÍ og Vísindagörðum og gæti skapað tækifæri á einstakri blöndun hugmynda og grósku,“ segir Sigurður Magnús Garðarsson.
Viðtalið birtist í Morgunblaðinu 23. desember 2020. Höfundur: Baldur Arnarsson, blaðamaður. Mynd: Morgunblaðið.