Ein og hálf kreppa
Enn eitt árið er liðið og allt að gerast hjá okkur á Vísindagörðum Háskóla Íslands. Það má segja að framkvæmdahluti Vísindagarða hafi hafist fyrir alvöru í lok síðustu efnahagsörðugleika, eða árið 2012. Í nokkur ár þar á eftir voru framkvæmdir á svæðinu með þeim umsvifamestu á landinu. Félagsstofnun stúdenta byggði stúdentaíbúðir, Alvotech reisti glæsilegar höfuðstöðvar sínar og síðan kom seinni hluti stúdentagarðanna. Ekki má svo gleyma hinu stórkostlega Gróskuhúsi sem opnað verður á miðju ári 2020.
Í viðspyrnu eftir efnahagsörðugleikana munu Vísindagarðar Háskóla Íslands aftur leika mikilvægt hlutverk. Það verður þó með allt öðrum hætti því nú getum við vænst þess að þau verkefni sem Vísindagarðar fóstra muni skapa grunn að nýrri efnahagsstoð sem byggir á hugviti og mannauði á sviði vísinda og tækni, sem ekki voru til staðar á fyrri tímabilum til uppbyggingar samfélags okkar. Í vísindasamfélaginu er oft rætt um akademískt frelsi og mikilvægi þess að grunnrannsóknir og frumleg verkefni fái forgang án þess að beinharður fjárhagslegur ávinningur hangi á spýtunni. Um leið og mikilvægt er að verja þá hagsmuni og muna að jafnvel þótt þær raddir geti hljómað hjáróma í dag sem finna grunnvísindum allt til foráttu, þá lifum við á tímum þar sem hætt er við að slík öfgasjónarmið dafni og hart verði vegið að grunnvísindum.
Mikilvægt er að hafa í huga að Vísindagörðum er líka ætlað þeim akademísku starfsmönnum sem velja að stunda hagnýtar rannsóknir og hagnýta þekkingu til hagræns ávinnings. Slík hagnýting er það sem Vísindagörðum er ætlað að fóstra og skapa verðmæti sem líkleg eru til að leggja af mörkum tekjur til samfélagsins og tryggja þannig til lengri tíma lífsgæði á Íslandi. Hagnýting þekkingar á sviðum lífvísinda, reiknifræði og orkuframleiðslu eru svið sem nú þegar byggir á styrkum stoðum. Það er ljóst að hægt er að auka til muna og hraða hagnýtingu á þessum sviðum hér á landi þar sem hugverk á þessum sviðum geta orðið fjárfestum og eigendum til ávinnings en ekki síður til aukinnar framleiðni og gæða í mikilvægum stofnunum samfélagsins á sviði heilbrigðisþjónustu, mennta og orkuframleiðslu. Ólíkt því sem oft er haldið fram hafa hin hagnýtu vísindi ekki gengið á hlut grunnvísinda nema síður sé. Versti óvinur beggja eru sýndarvísindi sem engin verðmæti búa til í eiginlegum eða óeiginlegum skilningi. Það er því mikilvægt að háskólasamfélagið taki höndum saman um að fagna tilvist langþráðra vísindagarða og því að hagnýting þekkingar geti orðið að lykilhlutverki Háskóla Íslands til jafns við kennslu og grunnrannsóknir sem mörg okkar hefur dreymt um að verði að veruleika.
“Það er því mikilvægt að háskólasamfélagið taki höndum saman um að fagna tilvist langþráðra vísindagarða og því að hagnýting þekkingar geti orðið að lykilhlutverki Háskóla Íslands til jafns við kennslu og grunnrannsóknir sem mörg okkar hefur dreymt um að verði að veruleika. ”
Nú þegar samfélag Vísindagarða verður áþreifanlegt og heillandi leyfi ég mér að vona að frumleg hugsun, framsækni og metnaður aukist. Í slíku samfélagi munu fæðast ný verkefni og ný svið akademískra viðfangsefna og starfsemin laða til sín mikilvægan mannauð af öllum gerðum, allstaðar að úr heiminum. Þau metnaðarfullu verkefni sem til staðar eru á svæðinu og hófust með Íslenskri erfðagreiningu eru okkur fyrirmynd og hvatning um að þetta sé raunverulegur möguleiki. Hvorki lífið sjálft né nýsköpun lýtur deildarskiptingu né þeirri sérfræðiafmörkun akademískrar starfsemi sem við höfum nú byggt upp í rúm 100 ár undir forystu og merkjum Háskóla Íslands. Vísindagörðum er ætlað að samhæfa og sameina þessa krafta, samfélaginu til góðs og eflingar akademískrar starfsemi og hugsunar. Það er mín von að í náinni framtíð finni listsköpun sér samastað og nálægð við Háskóla Íslands því slík samlegð hefur svo sannarlega sannað gildi sitt og Háskóli Íslands alla tíð tengst listsköpun á öllum sviðum lista. Það er einnig von mín að nýr Listaháskóli Íslands fái risið í Vatnsmýrinni og listir, vísindi og hagnýting þekkingar blandist hér í kraftmikla og skapandi uppskrift sem verði okkur mikilvæg uppspretta menningar, lífsgæða og hagsældar. Ég geri mér grein fyrir því að þetta eru stórar hugmyndir. Hugmyndir sem gefa fögur fyrirheit og miklar væntingar. Við höfum þó borið gæfu til þess að feta þessa slóð í stuttum skrefum og endurskoðað og betrumbætt áætlanir og gert þær viðráðanlegar. Nú blasir við umgjörð samfélags sem einungis verður haldið aftur af með þröngsýni og úrtölum. Þetta er sagt vegna þess að það sem fyrirsjáanlega getur komið í veg fyrir „Það er mikilvægt að háskólasamfélagið taki höndum saman um að fagna tilvist langþráðra vísindagarða og því að hagnýting þekkingar geti orðið að lykilhlutverki Háskóla Íslands til jafns við kennslu og grunnrannsóknir sem mörg okkar hefur dreymt um að verði að veruleika.“ að þessi sýn rætist er sundurlyndi, en glæður þess virðist svo auðvelt að blása í og vekja loga sundurlyndis og uppburðarleysis. Vísindagarðar eru hins vegar komnir á skrið og vonandi munu skapast heitar umræður um tilgang þeirra og samsetningu. Ég veit að á því skriði mun þungi frumlegrar hugsunar og hagur samfélagsins stefna Vísindagörðum í rétta átt.
“Ég geri mér grein fyrir því að þetta eru stórar hugmyndir. Hugmyndir sem gefa fögur fyrirheit og miklar væntingar. Við höfum þó borið gæfu til þess að feta þessa slóð í stuttum skrefum og endurskoðað og betrumbætt áætlanir og gert þær viðráðanlegar.”
Hilmar og Jón Atli á aðalfundi VHÍ 2020