Aðdragandinn

Árið 2021 samþykkti stjórn Vísindagarða Háskóla Íslands stefnu og aðgerðaáætlun fyrir starfsemina til næstu þriggja ára.

Meginhlutverk Vísindagarða var markað í þessari vinnu, að vinna að tengslum atvinnulífs og vísinda, vinna að því að efla grunnrannsóknir og nýsköpun og stuðla þannig að aukinni hagsæld og framförum með auknum líkum á að nýsköpunarhugmyndir fólks verði að veruleika.

Markaðar áherslur í starfi Vísindagarða til næstu þriggja ára (2021-2024) skyldu því vera:

  • Vinna að uppbyggingu á svæðinu​

  • Skapa dýnamískt samfélag​

  • Byggja upp góða innviði og aðstöðu​

  • Styrkja tengsl við háskólann og atvinnulífið​

  • Laða að réttu fyrirtækin, sprotana og stofnanir​

Á grundvelli þessarar stefnumótunar setti stjórn Vísindagarða af stað vinnu við að skoða hvort grundvöllur væri fyrir því að Vísindagarðar byggðu rannsóknarhús á einni af lóðum sínum sem byggði á aðferðafræði djúptækni.

Þá hafði einnig lengi verið bent á mikilvægi nálægðar og samstarfs og kallað eftir betri aðstöðu til að stunda rannsóknir í þverfaglegu umhverfi. Slíkar hugmyndir um þverfaglegt samstarf eru einnig í anda stefnu Háskóla Íslands, stefnu Innviðasjóðs og stjórnvalda.

Verkefnið hefur gengið undir vinnuheitinu Djúptæknikjarni en er nú kallað Djúptæknisetur. Í byrjun árs 2022 var Hans Guttormur Þormar fenginn sem ráðgjafi að verkefninu og vann hann með Hrólfi Jónssyni framkvæmdastjóra Vísindagarða og fleirum að fýsileikakönnun. 

Unnar voru hugmyndir að viðskiptamódeli sem gerir ráð fyrir því að Vísindagarðar byggi húsið og leigi það síðan út. Annars vegar til félags sem verði stofnað til að halda utan um rekstur innviðanna. Hins vegar geti fyrirtæki jafnframt leigt sér aðstöðu í húsinu, sem er þá hugsuð sem venjuleg skrifstofuaðstaða. Unnin var rekstraráætlun fyrir félag um innviði, stillt upp hugmyndum um gjaldskrá félagsins og unnin kostnaðaráætlun fyrir 11.200 fermetra byggingu sem yrði staðsett á lóð Vísindagarða að Bjargargötu 3 og rekstraráætlun slíks húss.

Fjölmargir kynningarfundir hafa verið haldnir með hagaðilum á þessum undirbúningstíma, bæði háskólum og atvinnulífi.

Hugmyndir Vísindagarða voru m.a. kynntar Háskólaráði Háskóla Íslands.

Þá sendu Vísindagarðar erindi til Háskóla- iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins í september 2022.

Fyrir liggur þingsályktunartillaga studd af Samtökum atvinnulífsins um málið.

Stjórn Vísindagarða fjallaði um málið á fjölda stjórnarfunda á undirbúningstímanum.

Innviðaverkefni Samstarfshóps háskólanna

Í lok árs 2022 varð til á vegum Háskóla- iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins, Samstarfssjóður háskólanna. Beindi ráðuneytið erindi Vísindagarða varðandi Djúptæknisetur í þann farveg að sækja um í þennan nýstofnaða sjóð. Háskóli Íslands, í samstarfi við Háskólann í Reykjavík, háskólana á Akureyri, Hvanneyri og Hólum, Matís og Tæknisetur, sendi inn umsókn í sjóðinn. Jafnframt var gert ráð fyrir því að verkefninu yrði stýrt af Vísindagörðum auk þess sem að mótframlag til þess kæmi frá þeim.

Verkefnið hlaut brautargengi og var 54 m.kr. veitt til Háskóla Íslands vegna verkefnisins. Auk þess leggja Vísindagarðar verkefninu til 14 m.kr. og halda utan um verkstýringu þess f.h. Háskóla Íslands. Stýrihópur var skipaður og settu Vísindagarðar sér skipurit fyrir verkefnið.

Stýrihópinn skipuðu eftirtaldir Ólöf Vigdís Ragnarsdóttir f.h. HÍ og formaður hópsins. Eiríkur Stephensen hefur nú tekið sæti Ólafar fyrir hönd HÍ og er hann jafnframt formaður hópsins.

  • Eiríkur Stephensen og Sigurður Rúnar Guðmundsson f.h. Háskóla Íslands

  • Ágúst Valfells f.h. Háskólans í Reykjavík

  • Guðbjörg Hrönn Óskarsdóttir f.h. Tækniseturs

  • Elísabet Eik Guðmundsdóttir f.h. Matís

  • Egill Gautason f.h. Landbúnaðarháskólans

  • Rannveig Björnsdóttir f.h. Háskólans á Akureyri og Háskólans á Hólum

Þá var Hans Guttormur Þormar, sem áður hafði verið ráðgjafi Vísindagarða, ráðinn sem verkefnisstjóri fyrir verkefnið. Jafnframt var auglýst eftir öðrum verkefnisstjóra og í kjölfarið var Lára Kristín Stefánsdóttir ráðinn annar verkefnisstjóri verkefnisins og hóf hún störf um áramót 2023-2024. 

Stýrihópurinn hefur haldið nokkra fundi um verkefnið. Verklýsingin er að kortleggja rannsóknarinnviði landsins, velja hugbúnað til að skrá rannsóknarinnviði með það að markmiði að hægt sé að samnýta þá, meta þörf á nýjum innviðum og skoða möguleg rekstrarform fyrir félag sem heldur utan um innviði í væntanlegu Djúptæknisetri ásamt því að halda utan um skráningarkerfið til framtíðar. Jafnframt er unnið að myndun faghópa til að meta þörf fyrir innviðauppbyggingu og stuðla að þverfaglegu samstarfi kringum innviðina.

Í júní 2024 ákvað stýrihópur að velja skýjalausn fyrir innviðaskráningar sem heitir Clustermarket og í kjölfar þeirrar ákvörðunar var Gísli Karl Gíslason ráðinn sem verkefnastjóri að verkefninu. Hann hóf störf um miðjan ágúst og í kjölfar þess hófst átak í skráningu innviða landsins inn í nýtt kerfi.

Gert er ráð fyrir að sækja um áframhaldandi styrk vegna verkefnisins til Háskóla- iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins, Samstarfssjóðs háskólanna en ráðuneytið áformar að auglýsa eftir umsóknum í september.

Rannveig Björnsdóttir
Háskólinn á Akureyri og Háskólinn á Hólum

Guðbjörg Hrönn Óskarsdóttir
Tæknisetur

Elísabet Eik Guðmundsdóttir
Matís

Eiríkur Stephensen
Háskóli Íslands

Egill Gautason
Landbúnaðarháskóli Íslands

Ágúst Valfells
Háskólinn í Reykjavík

Ákvörðun um að hefja byggingu Djúptækniseturs

Á stjórnarfundi Vísindagarða í júní 2023 samþykkti stjórn félagsins fyrir sitt leiti að hefja byggingu á sérhæfðu rannsóknarhúsi sem jafnframt væri að hluta almennar skrifstofur. Var það gert með þeim fyrirvara að Háskóli Ísland kæmi með skuldbindandi yfirlýsingu um þátttöku í verkefninu þegar rekstur í húsinu hæfist. Byggði sú ákvörðun stjórnarinnar á fyrirliggjandi undirbúningsvinnu og stefnu Vísindagarða. Jafnframt var horft til stefnu Háskóla Íslands, Innviðasjóðs og stefnu stjórnvalda varðandi rannsóknir og nýsköpun.

Yfirlýsing Hákóla Íslands fékkst síðan samþykkt á desemberfundi Háskólaráðs Háskóla Íslands.

Strax í janúar voru haldnir tveir kynningarfundir. Annar fundurinn var fyrir stjórnendur innan Háskóla Íslands, en þar fór Rektor Háskóla Íslands, Jón Atli Benediktsson m.a. yfir stöðu málsins og aðdraganda. Hrólfur Jónsson framkvæmdastjóri Vísindagarða fór yfir hlutverk Vísindagarða í verkefninu og að lokum kynnti Hans Guttormur Þormar verkefnastjóri hugmyndir um Djúptæknisetrið sjálft og tækifærin sem að slíkt hús getur skapað.

Viku síðar var síðan opinn fundur haldinn í fyrirlestrasal Grósku sem var vel sóttur. Nýsköpunarráðherra Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ætlaði að opna fundinn en hún forfallaðist á síðustu stundu og og í hennar stað var Sigríður Valgeirsdóttir fulltrúi ráðuneytisins á fundinum. Þá hélt Sigurður Magnús Garðarsson formaður stjórnar Vísindagarða og sviðsforseti Verkfræði- og Náttúruvísindasviðs erindi og að því loknu Hans Guttormur Þormar verkefnastjóri. 

Á stjórnarfundi Vísindagarða þann 2. febrúar var lögð fram tímalína fyrir verkefnið ásamt fjárhagsáætlun vegna undirbúningskostnaðar 2024. Þá var lögð fram tillaga að skipun byggingarnefndar og drög að skipunarbréfi byggingarnefndarinnar. Samþykkt var að stofna sérstakt fasteignafélag sem að héldi utan um verkefnið. Bjargargata 3.

Á stjórnarfundinum gerði stjórnarformaður Sigurður Magnús Garðarsson jafnframt grein fyrir viðræðum sínum við starfsfólk Vísindagarða um breytingar á starfsmannamálum. Lagði hann til að Hrólfur Jónsson stigi til hliðar sem framkvæmdastjóri en Þórey Einarsdóttir tæki við af honum. Hrólfur myndi starfa áfram sem aðstoðarframkvæmdastjóri en stíga til hliðar í áföngum og færa sig alveg yfir í starf sem formaður byggingarnefndar fyrir Djúptæknisetur í lok ársins. Til að byrja með í 30 /70 % starfshlutföllum. 

Ásamt Hrólfi voru þau Sigríður Sigurðardóttir verkefnastjóri NLSH og Guðmundur Ragnar Jónsson framkvæmdastjóri Háskóla íslands skipuð í byggingarnefndina. Með byggingarnefndinni starfa síðan Lára Kristín Stefánsdóttir verkefnastjóri Djúptækniseturs, Þorkell Sigurlaugsson ráðgjafi og Eiríkur Stephensen, innviðastjóri Háskóla Íslands.

Byggingarnefndin hélt sinn fyrsta fund þann 15. mars 2024. Farið var yfir skipunarbréf byggingarnefndarinnar og samþykkti byggingarnefndin að leggja til að gera eftirfarandi breytingar á því. Að kostnaðaráætlanir verði unnar samkvæmt kostnaður.is. Að fylgt yrði aðferðafræði NLSH við forval og útboð á hönnun og verkframkvæmdum. Samkomulag er við NLSH um að byggingarnefndin megi nota þeirra forvals- og útboðsgögn sem fyrirmyndir. Stjórn Vísindagarða samþykkti þessar breytingar á fundi sínum í þann 3. apríl.

Þá var formanni falið að undirbúa skoðunarferð nefndarinnar til Stokkhólms og Kaupmannahafnar til undirbúnings forvali. Jafnframt var samþykkt að bjóða Hákoni Hrafni Sigurðssyni með í ferðina en hann leiðir uppbyggingu Heilbrigðisvísindahúss Háskóla Íslands. Auk þess var samþykkt að leita til Lagnatækni um samráð vegna undirbúnings forvalsgagna.