
Tillaga um næstu skref vegna Djúptæknikjarna
Reykjavík 28.03.2023
Djúptæknikjarni
Eftirfarandi hugmynd að tillögu er lögð fram á stjórnarfundi Vísindagarða 14. apríl 2023 til umræðu og mögulega að taka hana fyrir á stjórnarfundi í maí. Stjórnin skoði þá í ljósi þessarar hugmyndar hvaða frekari gögn hún vill sjá til að taka þessa ákvörðun.
Meðfylgjandi er uppfærð frumkostnaðaráætlun vegna byggingar hússins og afleidd rekstraráætlun.
Hugmynd að tillögu
Stjórn Vísindagarða er tilbúin fyrir sitt leiti að samþykkja að hefja byggingu á fyrirhuguðu rannsóknarhúsi, svokölluðum Djúptæknikjarna á lóð félagsins við Bjargargötu 3.
Stefnt er að því að byggja þar hús í eigu Vísindagarða samkvæmt gildandi deiliskipulagi lóðarinnar. Jafnframt er gert ráð fyrir að bílastæðakjallari í eigu Vísindagarða að Sæmundargötu 21 verði lagður inn í verkefnið.
Er stjórnarformanni og framkvæmdastjóra ásamt ráðgjafa falið að kynna væntanlega ákvörðun stjórnar fyrir rektor HÍ, háskólaráði, borgarstjóra, ráðherra háskóla iðnaðar og nýsköpunar og samráðshóp um kortlagningu rannsóknarinnviða.
Viljayfirlýsing inn í háskólaráð,
Stjórnarformanni og framkvæmdastjóra er síðan falið að gera grein fyrir þessum kynningum á stjórnarfundi í maí.
en þar er gert ráð fyrir að taka ákvörðun um og fela framkvæmdastjóra Vísindagarða eftirfarandi til undirbúnings byggingarinnar:
Í samráði við Deloitte, að stofna hlutafélag, Rannsóknarinnviðir annað nafn ehf, utan um byggingu rannsóknarhússins.
Í samráði við Arkitektafélag Íslands, að undirbúa hönnunarsamkeppni um hönnun hússins þar sem að aðalhönnuðir verða valdir. Að því loknu verði hafist handa við forhönnun og verkhönnun byggingar en við byggingu hússins verður beitt hefðbundinni útboðsleið.
Að vinna nánar með fyrirliggjandi hugmyndir að nýju skipuriti Vísindagarða og skipun byggingarnefndar fyrir verkefnið.
Að vinna verkþáttagreiningu og tímalínu þeirra til næstu áramóta og leggja fyrir stjórn.
Að uppfæra fyrirliggjandi fjárfestinga- og rekstraráætlanir.
Að undirbúa texta í auglýsingu eftir áhugasömum leigjendum í almenna hluta hússins.
Greinargerð:
Í kjölfar vinnu stjórnar Vísindagarða árið 2021 við stefnumótun þar sem m.a. var haft samráð við fjölmarga hagaðila og síðan samþykkt nýrrar stefnu fyrir Vísindagarða, var hafist handa við að skoða hugmyndir um opinn rannsóknarinnvið/djúptæknikjarna á lóð Vísindagarða. Var málið m.a. á dagskrá stjórnar Vísindagarða í september 2021.
Þá var ráðgjafi Hans Guttormur Þormar fenginn í verktöku til að vinna með framkvæmdastjóra að verkefninu en hann hafði áður unnið að hugmyndum, ásamt fleirum, varðandi Heilbrigðis- og líftækniklasa. Hann hafði einnig kynnt hugmyndir um líftækni- og verkfræðikjarna og í framhaldi af því unnið með framkvæmdastjóra að því að skoða mögulegt músarannsóknarsetur í Grósku. Eiga þessar hugmyndir um Djúptæknikjarna rætur í þessum verkefnum og svo stefnu Vísindagarða um að efla grunnrannsóknir og tengja saman háskóla og atvinnulíf. Þá hefur jafnframt verið horft til þeirrar stefnumörkunar vegvísis Innviðasjóðs um samnýtingu innviða en það er grunnstefið í hugmyndum um djúptæknikjarnann að rannsóknarinnviðir og aðstaða sem þar verði komið upp verði öllum opin gegn tímagjaldi.
Í nóvember 2021 lá síðan fyrir aðgerðaáætlun til næstu 5 mánaða eða fram til aprílloka 2022. Eftir þessari áætlun var unnið að undirbúningi. Hófst hún á kynningu fyrir Háskólaráði á fundi ráðsins í nóvember. Áður höfðu hugmyndirnar verið kynntar fyrir rektor HÍ og miðlægri stjórnsýslu HÍ.
Hans Guttormur stillti upp hugmyndum að deildum djúptæknikjarnans. Þá í þeim tilgangi að gera sér grein fyrir húsnæðisþörf og mögulegum rekstrarkostnaði djúptæknikjarnans. Stillt var upp hugmyndum að tilraunastofum í líftækni, fínsmíða- og örtækniverkstæði og myndgreiningaraðstöðu.
Hlutverk Vísindagarða í verkefninu verður að fjármagna og byggja hús sem síðan leigir aðstöðu til sérstaks rekstrarfélags sem að sér um að reka Djúptæknikjarnan. Auk þess verður boðin aðstaða fyrir fyrirtæki sem að vilja vera með aðstöðu á sama stað og Djúptæknikjarninn. Munu Vísindagarðar jafnframt vera leigusali í þeim hluta hússin.s Til aðgreiningar hafa vinnuheitin verið, Kjarninn, fyrir Djúptæknikjarnann (opinn rannsóknarinnvið) og Djúpið fyrir skrifstofuaðstöðu fyrir fyrirtæki. Fjölmargir kynningarfundir voru haldnir með hagaðilum á þessu tímabili.
Vísindagarðar hófu vinnu við endurfjármögnun félagsins í árslok 2021. Í þeirri vinnu var fundað með bönkum og mögulegum fjármögnunaraðilum. Um leið og farið var yfir fjárhagsstöðu Vísindagarða með þessum aðilum voru hugmyndir um byggingu Djúptæknikjarna kynntar. Kom fram mikill áhugi af hálfu þessara aðila að fjármagna byggingu hans.
Í maí 2022 rituðu síðan formaður og framkvæmdastjóri bréf f.h. Vísindagarða til rektors HÍ þar sem óskað var eftir ákveðinni stuðningsyfirlýsingu af hálfu HÍ. Þar er jafnframt farið yfir mögulegan ávinning HÍ af þessu verkefni. Rektor lagði erindi Vísindagarða fyrir Háskólaráð 2. júní sem samþykkti stuðningsyfirlýsingu við verkefnið.
Mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að ákveðin kerfisbreyting er fólgin í þessari hugmynd varðandi rannsóknarinnviði og hefur verið fjallað um það ásamt öðrum þáttum verkefnisins á fjölmörgum stjórnarfundum Vísindagarða.
Í júní 2022 samþykkti stjórn Vísindagarða síðan nýja áætlun til undirbúnings Djúptæknikjarna. Var það gert í kjölfar stuðningsyfirlýsingar Háskólaráðs. Megin áhersla var lögð á að gera grein fyrir að með verkefninu ekki sé um auknar fjárveitingar til rannsókna af hálfu ríkisins heldur sé um að ræða ákveðna kerfisbreytingu. Henni sé hægt að ná fram með tilflutningi fjármuna. Jafnframt er þörf á að fá samskonar viljayfirlýsingu stjórnvalda við verkefnið og Háskólaráð samþykkti sem og að afla betri vitnesku um áhuga fyrirtækja á að leigja í Djúpinu. Allt ofangreint hjálpar stjórn Vísindagarða forsendur við að taka ákvörðun um að hefja formlega byggingu hússins.
Þá samþykkti stjórn Vísindagarða samning við M-Studió um gerð kynningargagna og að unnið skildi að samningi við Arctica Finance um ráðgjöf við öflun fjármagns til verkefnisins.
Stjórnvöld leiðbeindu Vísindagörðum, varðandi erindi um Djúptæknikjarna, að sækja um í samstarfssjóð Háskóla sem þá var verið að koma á. Í samstarfi við HÍ, HR, HA, LBHÍ, HáH, Matís og Tæknisetur var sótt um styrk og um áramótin 2022-23 fékkst styrkur af hálfu stjórnvalda til að kortleggja innviði, vinna þarfagreiningu og skoða mögulega stofnun rekstrarfélags um Djúptæknikjarna.
Allur þessi undirbúningur hefur miðað að því að kynna þessar hugmyndir, afla þeim stuðnings og jafnframt að gera stjórn Vísindagarða kleyft að taka ákvörðun um að hefja byggingu á húsi sem hýsa mun Djúptæknikjarnann. Ákvörðun sem byggir á áætlunum um byggingarkostnað, mögulegum leigutekjum af húsnæðinu og eftirspurn eftir aðstöðunni.
Það er mat undirritaðs að ekki verði lengra komist í að afla undirbúningsgagna og því sé rétt að stjórnin lýsi sig reiðubúna til að hefja hönnun á byggingu, þó að loknum lokakynningum á þeirri ákvörðun eins og fram kemur í tillögunni.
Hrólfur Jónsson,
Framkvæmdastjóri,
Vísindagarða Háskóla Íslands