
Bréf til ráðherra
Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið
Ráðherra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir
Erindi: Djúptæknikjarni og möguleg aðkoma stjórnvalda
Ágæti ráðherra.
Í kjölfar stefnumótunar Vísindagarða Háskóla Íslands (VgHÍ), sem lauk í júlí 2021 ákvað stjórn VgHÍ að setja af stað fýsileikakönnun á byggingu djúptæknikjarna* (e. Deeptech core facility). Hans Guttormur Þormar var fenginn sem ráðgjafi til verksins ásamt framkvæmdastjóra VgHÍ, Hrólfi Jónssyni. Þá hafa sérfræðingar frá Deloitte aðstoðað við áætlanagerð fjárfestinga- og rekstrarkostnaðar. Undanfarið hefur verkefnið verið kynnt fyrir fjölmörgum hagaðilum frá háskólum, stofnunum og fyrirtækjum og fengið jákvæðar undirtektir. Málið var á dagskrá Háskólaráðs þann 2. júní í kjölfar erindis VgHÍ þar sem óskað var eftir viljayfirlýsingu af hálfu HÍ um fjárhagslega aðkomu að kjarnanum. Samþykkti ráðið eftirfarandi bókun um málið:
“Háskólaráð lýsir yfir stuðningi við hugmyndir Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. um byggingu og rekstur djúptæknikjarna. Jafnframt felur háskólaráð rektor að vinna að nánari skoðun á því hvernig Háskóli Íslands getur stutt málið.”
* Djúptækni (e. Deeptech) er svið þar sem beitt er vísindalegri og verkfræðilegri nálgun, oft þverfaglegri, við þróun lausna. Djúptækni þróast upp úr og nýtir hefðbundin fræði svo sem efnistækni, eðlisfræði, raunvísindi, verkfræði, líftækni, læknisfræði, hönnun og listsköpun. Til þess þarf góða og aðgengilega innviði.
Útfærsla hugmyndarinnar
Bygging í eigu og rekstri Vísindagarða
Fyrir liggur frumkostnaðaráætlun á byggingu rúmlega 11.000 fermetra húss á lóð VgHÍ þar sem áætlað er að nýta um 6–7.000 fermetra fyrir rannsóknarinnviði og aðstöðu tengda háskólum, stofnunum og sprotafyrirtækjum (Kjarninn), en leigja á almennum markaði 4–5.000 fermetra til fyrirtækja (Djúpið) sem myndu nýta sér innviði og aðstöðu Kjarnans. Vísindagarðar hafa fjárhagslega getu til að standa að byggingu hússins og bankar og aðrir fjárfestingaráðgjafar hafa lýst yfir áhuga á fjármögnun verkefnisins. Gert er ráð fyrir að húsið verði í eigu VgHÍ og að leigutekjur, frá fyrirhugaðri aðstöðu og rannsóknarinnviðum (Kjarninn) annars vegar og fyrirtækjum (Djúpið) hins vegar, standi undir rekstri þess.
Rekstrarfélag um kaup og rekstur tækjabúnaðar og aðstöðu (Kjarninn)
Gert er ráð fyrir að óhagnaðardrifið (non-profit) rekstrarfélag haldi utan um rekstur rannsóknarinnviða og aðstöðu í Kjarnanum. Um væri að ræða félag í eigu allra hagaðila eða ríkis. Með þannig fyrirkomulagi er tryggt að allir háskólar í landinu geti nýtt aðstöðuna, ásamt rannsóknarstofnunum, nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum og stærri fyrirtækjum. Aðgangur að innviðum yrði þá gegn greiðslu tímagjalds.
Þessar hugmyndir að rekstrarformi eru settar upp að erlendri fyrirmynd og í samræmi við þegar mótaða stefnu stjórnvalda og Vegvísis Innviðasjóðs. Í flestum tilvikum er um að ræða mjög dýran búnað sem krefst sérhæfðs starfsfólks og því óraunhæft að reka hann nema með aðkomu stjórnvalda og háskóla. Djúptæknikjarni eykur möguleika íslenskra vísindamanna á því að fá styrki erlendis frá og taka þátt í fjölþjóðlegum verkefnum. Með tilkomu djúptæknikjarnans skapast einnig margvíslegir möguleikar til að gera rannsóknar- og þróunarsamninga við erlenda rannsóknarhópa og fyrirtæki. Áætlaður árlegur rekstrarkostnaður innviða og aðstöðu í Kjarnanum (húsaleiga + launakostnaður + rekstrarkostnaður tækja) er um 650 m.kr. á ári með aðkomu háskóla, stofnana og framlagi ríkisins. Að auki muni fyrirtæki staðsett í kjarnanum eða annarsstaðar greiða fyrir aðgengi að tækjum og sérþekkingu starfsfólks.
Einstakt tækifæri
Með tilkomu djúptæknikjarna verður í fyrsta skipti á Íslandi mögulegt að sameina á einn stað grunnrannsóknir háskóla og stofnana á sviði djúptækni, hagnýtar rannsóknir háskóla, stofnana og fyrirtækja, nýsköpun, sprotastarfsemi og sterka tengingu við atvinnulífið. Þetta er ein af lykilforsendum þess að fjórða iðnbyltingin nái fótfestu í íslensku atvinnulífi og því mikilvægt að stjórnvöld komi að því að gera þessa hugmynd að veruleika. Þetta fyrirkomulag að rekstri innviða og aðstöðu í djúptæknikjarna myndi; a) uppfylla kröfu Innviðasjóðs um opnari aðgang að rannsóknarinnviðum, b) stjórnvöld fengju betri yfirsýn yfir rekstur og notkun innviða sem þau fjármagna úr Innviðasjóði, c) til verður aðstaða og innviðir þar sem allir hafa aðgang að sbr. vegum, höfnum og flugvöllum, d) Aukinn sýnileiki rannsókna og nýsköpunar og þeirra möguleika sem eru til staðar ásamt hagkvæmari rekstri innviða.
Líta verður á fjárfestingu í innviðum og aðstöðu á þessum sviðum sem kostnað sem skilar sér í auknum rannsóknum og nýsköpun til langrar framtíðar.
Þverfagleg samvinna eykst með tilkomu djúptæknikjarnans og samsöfnun þekkingar frá mörgum fræðasviðum verður einstök fyrir djúptæknikjarnann. Í Kjarnanum verða við rannsóknir og störf tæknifólk, vísindamenn, meistaranemar, doktorsnemar og nýdoktorar frá öllum háskólum auk allra þeirra einstaklinga og fyrirtækja sem nýta sér innviðina/aðstöðuna.
Styrkur djúptæknikjarnans verður ekki eingöngu bundinn við staðsetningu hússins heldur verður mögulegt að styðja við uppbyggingu sérhæfðra rannsóknarinnviða og aðstöðu vítt og breitt um landið allt eftir því hvar sérþekkingin og reynslan liggur. Stoðkerfi við rannsóknir og nýsköpun á sviði djúptækni á sér engin landamæri.
Viljayfirlýsing frá stjórnvöldum
Hér með óskum við eftir afstöðu stjórnvalda til ofangreindra áætlana þannig að stjórn VgHÍ geti tekið ákvörðun um og tímasett næstu skref í uppbyggingu djúptæknikjarna,
Reykjavík 2022
Sigurður Magnús Garðarsson
stjórnarformaður VgHÍ
Hrólfur Jónsson
framkvæmdastjóri VgHÍ