Ársskýrsla 2024

Árið 2024 var ár framfara fyrir Vísindagarða Háskóla Íslands. Með auknum tekjum og fjölbreyttari starfsemi tókst félaginu að styrkja stöðu sína enn frekar sem leiðandi afl í nýsköpun og þekkingarsköpun á Íslandi. Lögð var sérstök áhersla á að efla sprotaumhverfið, grunnrannsóknir, dýpka tengsl við atvinnulíf og háskólasamfélag, auk þess að skapa vettvang fyrir áhugaverða viðburði tengda nýsköpun og vísindum í Vatnsmýrinni. Samhliða þessu hefur félagið unnið markvisst að því að þróa svæðið og efla samfélagið til að laða að nýja samstarfsaðila og kynna lausar lóðir. 

 Starfsemi félagsins byggir áfram á stefnu stjórnar frá árinu 2021, en starfsáætlun ársins 2024 fól í sér skýr markmið um uppbyggingu innviða, þar á meðal þróun Djúptækniseturs. Þessi verkefni sýna fram á skuldbindingu Vísindagarða við að umbreyta þekkingu í verðmæti og stuðla að sjálfbærri þróun samfélagsins. Á árinu hófst vinna við endurskoðun stefnu félagsins þar sem núgildandi stefna var upphaflega mörkuð til þriggja ára og því kominn tími á endurskoðun.  

Ávarp rektors Háskóla Íslands, Jóns Atla Benediktssonar

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands

Háskóli Íslands er alhliða alþjóðlegur rannsóknaháskóli sem nýtur virðingar um heim allan og er nýsköpun í víðum skilningi lykilþáttur í öllu starfi skólans. Birtist nýsköpunin ekki aðeins í öflugu rannsóknastarfi, tækniþróun, einkaleyfaumsóknum og sprotafyrirtækjum, heldur einnig á margvíslegan annan hátt á öllum fræðasviðum skólans, s.s. í þróun námsframboðs og nýrra leiða til að styðja við nám og kennslu, í ritverkum sem auðga andann, nýjum lyfjum sem lina þjáningar fólks og skilvirkari leiðum í opinberri þjónustu, svo dæmi séu nefnd. 

Afar mikilvægt skref til frekari eflingar nýsköpunarstarfs hefur verið stigið á síðustu árum með örri uppbyggingu Vísindagarða HÍ í hjarta háskólasvæðisins í Vatnsmýrinni. Markmið Vísindagarða er að leiða saman háskóla og þekkingardrifin atvinnufyrirtæki til að virkja með markvissum hætti samlegðaráhrif atvinnulífs og rannsóknastofnana og skapa þannig frjóan jarðveg fyrir ný útflutnings- og atvinnutækifæri á Íslandi. Á svæði Vísindagarða HÍ eru nú þegar starfandi öflug fyrirtæki á borð við líftæknifyrirtækin Íslenska erfðagreiningu og Alvotech og tölvuleikjafyrirtækið CCP sem hefur aðsetur í hugmyndahúsinu Grósku sem hýsir margvíslega nýsköpunarstarfsemi, öflugar stuðningseiningar við frumkvöðla og sprotafyrirtæki, m.a. á sviði fjármála, ferðamála og arkitektúrs og hönnunar.

Háskóli Íslands á í fjölbreyttu samstarfi við fyrirtæki á Vísindagörðum. Með slíku samstarfi um rannsóknir og nýsköpun er skotið fjölbreyttari stoðum undir íslenskt atvinnulíf með spennandi tækifærum fyrir ungt fólk, en slíkt hefur bæði efnahagslega og samfélagslega þýðingu fyrir Ísland. 

Vísindagarðar Háskóla Íslands eru í örri þróun og fjarri því fullbyggðir enda eru mörg áhugaverð verkefni fram undan. Í því sambandi má m.a. nefna að unnið er hörðum höndum að undirbúningi djúptæknikjarna sem áformað er að reisa á næstu árum í samstarfi við stjórnvöld, háskóla og atvinnulíf. Djúptæknikjarninn mun hýsa mikilvæg rannsóknatæki til samnýtingar fyrir einstaklinga, stofnanir og fyrirtæki ásamt því að vera vettvangur öflugrar starfsemi.

Ég er afar stoltur af öflugri uppbyggingu Vísindagarða Háskóla Íslands undanfarinn áratug. Við í HÍ erum staðráðin í að halda þessari mikilvægu uppbyggingu áfram á komandi árum í samstarfi við stjórnvöld og atvinnulíf með það að markmiði að búa í haginn fyrir farsæla framtíð íslensks samfélags. Áframhaldandi uppbygging og þróun Vísindagarðanna mun skipta samfélag okkar afar miklu máli.

Ávarp stjórnarformanns, Sigurðar Magnúsar Garðarssonar

Starfsemi Vísindagarða gekk fjárhagslega vel á árinu 2024. Fjárhagslegur styrku félagsins jókst enn frekar. Hagnaður félagsins á árinu 2024 nam 530 millj. kr. samanborið við 378 millj. kr. við árið 2023. Eigið eigið fé félagsins nam 6.477 millj. kr. í árslok samanborið við 5.947 millj. kr. í árslok 2024. Eiginfjárhlutfall félagsins er 42,2% í árslok 2024. Þeir fjármunir eru ekki teknir út úr félaginu heldur verða nýttir á næstu árum til uppbyggingar Vísindagarða með áherslu á tengingar háskólastarfsemi og atvinnulífs.

Á árinu og byrjun árs 2025 var framtíðarsýn og stefnumörkun Vísindagarða endurskoðuð í framhaldi af þeirri sem unnin var til þriggja ára árið 2021. Sú stefnumótun var unnin í samstarfi við MIT DesignX sem er rekið af Svöfu Grönfeldt prófessor við MIT í Boston. Það hefur verið afar gagnlegt ferli og eitt af því sem hefur skýrst betur við þá vinnu er það tækifæri sem felst í byggingu vísinda-, rannsókna- og frumkvöðlaseturs sem hefur gengið undir nafninu Djúptæknisetur. Fyrsta skrefið í því ferli er að taka í notkun skráningarkerfi allra innviða innan Háskóla Íslands og annarra aðila. Ef líkja mætti þessu við eitthvað þá væri það bókasafnskerfi sem okkur finnst einfalt og sjálfsagt kerfi sem allir hafa aðgang að og geta nýtt. Tæknibúnaður svo og aðgengi og eignarhald hans er skráð í kerfið Clustermarket sem er erlent kerfi sem góð reynsla er af. Rætt hefur verið við fjölmarga hagaðila m.a. aðra háskóla, rannsóknarstofnanir og fyrirtæki sem hafa almennt tekið jákvætt í verkefnið. Mörg þeirra eru með í notkun mikla innviði eða tækjabúnað þar sem skort hefur á formlegt utanumhald og yfirsýn.

Með skráningu innviða og rekstur vísinda-, rannsókna og frumkvöðlaseturs á lóð Vísindagarða er að skapast grundvöll fyrir Ísland að leiða saman alla hagaðila í samstarf á sviði rannsókna og nýsköpunar. Fyrir lítið samfélag er afar mikilvægt að vinna saman og vera sem best undirbúin undir atvinnulífskapphlaup næstu ára eins og Samtök iðnaðarins hafa bent á. Hluti af þessu er að koma upp þekkingu á gervigreind arsetri og aðstöðu fyrir tæknilega innviði. Sterk tengsl við útlönd er grundvöllur efnahagslegra- og samfélagslegra framfara og eru jafnframt mikilvæg bæði til þróunarstarfs í tæknibyltingu fjórðu iðnbyltingar, en einnig á sviði öryggismála í fjarskipta- og upplýsingatækni.

Nýsköpunarsetur Vísindagarða og húsnæði undir sprotafyrirtæki má rekja til byggingar Tæknigarðs 1988 á lóð HÍ við Dunhaga. Þá var Internetið fyrst tekið þar inn til notkunar á Íslandi ári síðar, sem var grundvöllur að þeirri þróun sem átti síðar eftir að verða með uppbyggingu internetsins og ljósleiðaravæðingar um allt land. Reyndar má rifja upp fyrstu og þá öflugustu tölvu á Íslandi sem tekin var í notkun árið 1964 af IBM 1401 gerð og var til húsa í kjallara Raunvísindastofnunar HÍ við Dunhaga. Það stóra fyrirbæri kallaðist þá rafreiknir, en fljótlega kom orðið tölva til sögunnar. Núverandi nýsköpunarsetur Vísindagarða HÍ í Grósku, sem gengur undir nafninu Mýrin, er vísir að nýrri þróun. Mýrin er grunnur að frumkvæði sem háskólinn hefur sýnt í að auka frumkvöðlastarf, efla þróun atvinnulífs og sækja fram með nýsköpun og tækniþróun, sem eykur samkeppnishæfni atvinnulífsins og Íslands.

Á síðastliðnum 100 árum hefur Ísland farið úr því að vera ein fátækasta þjóð í Evrópu í þá sem skorar hæst á mælikvörðum hagsældar, jafnréttis, góðra lífskjara og öflugs atvinnulífs. Það hefur að stórum hluta byggt á því að nýta betur náttúrauðlindir þjóðarinnar sem eru fyrst og fremst sífellt betri nýting sjávarfangsins, nýting innlendrar orku fallvatna og jarðvarma og á undanförnum árum ferðaþjónustu sem byggir að stórum hluta á þeirri auðlind sem felst í fegurð landsins og þeirri náttúruauðlind sem náttúran býr yfir.

En áfram þarf að skjóta fleiri stoðum undir hagsæld Íslands ef við eigum ekki að dragast aftur úr. Það gerum við aðallega með því að nýta betur hugarorkuna, hugvitið og allar þær auðlindir sem felast í góðri menntun og tæknivæðingu um land allt. Á næstu árum verður umbreyting í atvinnurekstri með 4.iðnbyltingunni og þar mun reyna mun meira á 4.stoðina í okkar atvinnulífi. Hún byggir ekki síst á virkjun hugvits og þar með hugverkaiðnaðar. Mikilvægt er að stjórnvöld stigi þar með og fjárfesti í innviðum á þessu sviði með atvinnulífinu enda munu fjárfestingar í innviðum annarrar og þriðju iðnbyltingarinnar ekki duga í nýsköpun hugvitslandsins Íslands. Þar þarf atvinnustefna, menntastefna og innviðafjárfestingar að spila saman í halda okkur áfram í fremstu röð. Þannig náum við jafnframt að gera Ísland áfram að áhugaverðum valkost fyrir nýja kynslóð að búa og starfa á 21. öldinni.

Sigurður Magnús Garðarsson, stjórnarformaður Vísindagarða HÍ

Fjármál

Tekjur félagsins á árinu 2024 námu 1.049 m. kr. og eru tilkomnar af leigu húseignarinnar að Sturlugötu 8 sem hýsir Íslenska erfðagreiningu ehf., leigu á byggingarrétti að Sæmundargötu 15-19 og 21, þar sem Alvotech hf. rekur hátæknisetur og af byggingarétti að Bjargargötu 1, þar sem Gróska ehf. rekur Grósku. Tekjur félagsins hækka um 93 millj. kr. milli ára eða um 9,8% og taka að mestu breytingum samkvæmt breytingu á vísitölu neysluverðs til verðtryggingar. Aðrar breytingar eru vegna útleigu bílastæða, skrifstofu og skrifborða. Langtímalán félagsins eru að mestu verðtryggð með sömu vísitölu.

  • Hagnaður félagsins á árinu 2024 nam 530 millj. kr. samanborið við 378 millj. kr. við árið 2023

  • Matsbreyting fasteigna félagsins nam 326 millj. kr. samanborið við 389 millj. kr. á árinu 2023

  • Heildareignir félagsins námu 15.362 millj. kr. í árslok 2024 en þar af voru fjárfestingareignir 12.929 millj. kr. og handbært fé og markaðsverðbréf námu 672 millj. kr.

  • Vaxtaberandi skuldir námu 7.694 millj. kr. í árslok og eru 7.322 millj. kr. verðtryggðar skuldir.

  • Eigið fé félagsins nam 6.477 millj. kr. í árslok samanborið við 5.947 millj. kr. í árslok 2024. Eiginfjárhlutfall félagsins er 42,2% í árslok 2024

  • Tveir hluthafar eru í  félaginu en það eru Háskóli Íslands með 94,6% hlut og Reykjavíkurborg með 5,4% hlut. Í samþykktum félagsins segir að eigendum sé óheimilt að taka hagnað eða arð út úr félaginu.

Unnið hefur verið að endurbótum á uppsetningu bókhalds á árinu með innleiðingu á PowerBi hugbúnaði í samvinnu við Deloitte og voru nýjar deildir og lyklar teknir upp á árinu 2025. 

Ársreikningur 2024, undirritaður sjá hér

Stefnumótun

Á árinu hófst vinna við endurskoðun stefnu félagsins þar sem núverandi stefna var komin á tíma. Í þeirri vinnu tóku þátt stjórn og starfsfólk Vísindagarða, valdir hagaðilar, ásamt teymi frá ENNEMM undir leiðsögn Dr. Svöfu Grönfeldt, prófessors við MIT háskóla. Ákveðið var að notast við MIT DesignX aðferðafræðina sem Dr. Svafa Grönfeldt  hefur verið að vinna að og þróa. Styrkur þessarar nálgunar felst í samspili tveggja þátta: Annars vegar gríðarlegar þekkingar hjá MIT, sem hefur þróað sérstaka stefnumótunaraðferð sem byggir á hönnunar- og nýsköpunarhugsun og framtíðarsýn, og hins vegar reynslu ENNEMM í mörkun.

Stefnumótun Vísindagarða miðar að því að:

  • teikna upp sameiginlega framtíðarsýn Vísindagarða, 

  • framkvæma hugmyndir sem byggja brýr milli akademíu og atvinnulífs og stuðla að aukinni samkeppnishæfni Íslands með því að skapa frjóan jarðveg fyrir nýsköpunarfyrirtæki,

  • tileinka sér aðferðir sem víkka sjóndeildarhringinn og gera Vísindagörðum kleift að skara fram úr, 

  • fá nýja sýn á samkeppnisumhverfið, tækifæri og áskoranir

  • setja mælanleg markmið,

  • skilja þarfir hagaðila og byggja upp traust þeirra með skýrri sýn og markvissri forgangsröðun í raunhæfri aðgerðaáætlun.


Meðal þeirra sem tóku þátt voru háskólafólk frá ýmsum fræðasviðum, frumkvöðlar og fulltrúar nýsköpunarfyrirtækja, fulltrúar frá opinberum stofnunum, fyrirtæki á Vísindagörðum og stór alþjóðleg fyrirtæki. Með innleggjum frá þessum öfluga hópi varð til sterkur efniviður til að móta stefnu sem endurspeglar raunverulegar þarfir hagaðila Vísindagarða HÍ og auðveldar okkur að skapa sameiginlega sýn og skilning á hlutverki Vísindagarða. 

Djúptæknisetur

Mikill skriður komst á djúptækniverkefnið í ár. Byggingarnefnd djúptækniseturs fundaði fyrst í febrúar og hélt nefndin átta bókaða fundi á árinu. Lagt var til að taka upp samstarf við Nýja Landspítala og viðhafa opið forval og útboð samkvæmt þeim leikreglum sem þróaðar hafa verið við byggingu hans. Heimilaði NLSH byggingarnefndinni að nota öll gögn félagsins. Það hefur sparað talsverða fjármuni vegna undirbúnings auk þess sem að komin er mikil reynsla á þetta verklag. Jafnframt naut nefndin í nokkrum tilvikum ráðgjafar starfsfólks NLSH í ferlinu. Þá var ákveðið að leita eftir samráði við Fjársýslu ríkisins varðandi forvalið og útboðið. Sá Fjársýslan um að birta forvals- og útboðsgögn á útboðsvef sínum og sjá um alla framkvæmd þess. Áður hafði stjórn Vísindagarða einnig samþykkt að verkefnið skyldi framkvæmt með hefðbundinni útboðsaðferð þar sem að því yrði skipt í nokkra útboðsáfanga

Á þessum grunni hófst byggingarnefndin handa við að endurskrifa forvals- og útboðsgögn sem NLSH lagði nefndinni til. Til undirbúnings var farið í skoðunarferð í byrjun apríl til Stokkhólms og Kaupmannahafnar. Í Stokkhólmi voru heimsóttar eftirfarandi stofnanir skoðaðar: Sci-Life Lab, Forskaren og Solna Science Park.  Í Kaupmannahöfn/Lyngby var DTU Science Park heimsóttur. Mjög gagnlegar upplýsingar fengust um helstu hönnunarforsendur rannsóknarhúsa og hvernig að undirbúningi hefur verið staðið á þessum stöðum. Forskaren er nýopnað hús í Stokkhólmi og í Lyngby er verið að leggja lokahönd á hönnun ekki ósvipaðs húss og við hyggjumst byggja. Auk þess fengust mikilvæg tengsl. Skrifað hefur verið undir samstarfssamning við DTU Science Park vegna verkefnisins. 

Í júní var forval auglýst á vef Fjársýslunnar en það þýðir að auglýsingin birtist á evrópska efnahagssvæðinu. Átta teymi sóttust eftir þátttöku, allt íslenskir aðilar. Niðurstaða forvalsins var sú að fjórir þátttakenda uppfylltu kröfur, Arkís, Mannvit, Efla, og VSO. Tóku þessir aðilar síðan þátt í útboði á hönnun verkefnisins þar sem að Mannvit var með hagstæðasta tilboðið og hefur verið skrifað undir hönnunarsamning við þau. Teymið er samansett af COWI-Ísland, Plan-stúdíó og Inni-Úti. Í tímalínu verkefnisins er því skipt í fimm útboðsþætti, jarðvinnu sem gert er ráð fyrir að hefjist í maí 2026, uppsteypu, innréttingar sameiginlegra svæða, innréttingar sérsvæða og lóðafrágang og gatnagerð. Gert er ráð fyrir að framkvæmdum ljúki um mitt ár 2029.

Innviðaverkefni

Vísindagarðar HÍ fengu styrk frá háskóla, iðnaðar, og menntamálaráðuneytinu til þess að kortleggja rannsóknarinnviði á Íslandi með það í huga að auka sýnileika og aðgengi að þeim milli deilda og undirsviða mennta- og rannsóknarstofnana á Íslandi.

Á fyrstu stigum verkefnisins voru tvær hugbúnaðarlausnir skoðaðar, OpenIRIS og Clustermarket. Ákveðið var eftir úttekt á hugbúnaðarlausnunum og notendaprófunum að velja Clustermarket hugbúnaðinn, þar sem hún er notendavænni, með fleiri og betri eiginleika er snúa að skráningu viðhalds og viðgerðarupplýsinga, og veitir aðgengi að innviðum hjá stórum erlendum menntastofnunum eins og Oxford og Cambridge sem nota Clustermarket til að halda utan um sína eigin innviði. Í úttektinni voru átta aðilar úr vísinda og háskóla umhverfinu með í ákvarðanatöku. 

Útbúið var staðlað innleiðingarplan fyrir þáttakendur í Clustermarket verkefninu, en skjalið útskýrir í smáatriðum tilgang verkefnisins, hvernig skal skrá innviði, í hvaða röð skal innleiða tiltekna eiginleika hugbúnaðarins, hvernig skal þjálfa alla notendur, og aðrar ráðleggingar sem geta gagnast stofnunum sem eru með óvenjulegt vinnufyrirkomulag. Þetta innleiðingarplan hefur reynst einstaklega vel til að koma nýjum aðilum af stað með innleiðingu.

Eftirfarandi aðilar fengu kynningu á verkefninu árið 2024:

  • Verk og náttúrufræðisvið Háskóla Íslands

  • Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands

  • Tæknisetur

  • Háskólinn á Akureyri

  • Verkfræðideild Háskólans í Reykjavík

  • Landspítalinn

  • Arcticlas

  • Matís

  • Rannís

Við lok árs 2024 voru eftirfarandi aðilar lengst komnir í innleiðingu:

  • Lífvísindasetur HÍ

  • Tæknisetur

  • Borgir Rannsóknarhús HA

Eftirfarandi virkni hefur verið innleidd með þessum aðilum:

  • Skráning tækja

  • Skráning á þjónustum

  • Skráning á viðgerðum og viðhaldsferlum

  • Notendaumsýsla og aðgangsstýring

Stærsta innleiðingin sem farið verður í fyrri hluta 2025 er hjá verk og náttúrufræðisviði Háskóla Íslands, en stefnt er að því að innleiða Clustermarket hjá öllum undirsviðum, ásamt Raunvísindastofnun. Viðræður standa yfir við Háskólann í Reykjavík, Landbúnaðarháskóla Íslands, Matís, Landspítalann, og Arcticlas. Einnig er stefnt að því að innleiða Clustermarket með Alvotech fyrir Frumuna, nýjan rannsóknarkjarna Alvotech við Klettagarða 6 í Reykjavík.

Fruman - Rannsóknarkjarni Alvotech við Klettagarða

Unnið var að gerð leigusamnings f.h. Háskóla Íslands vegna 400 fermetra aðstöðu í húsnæði Alvotech við Klettagarða. Háskóli Íslands hóf að kenna iðnaðarlíftækni í húsnæðinu um áramót 2024-2025. Þá eru í gangi viðræður um sprotasetur sem yrði þá sameiginlega rekið af Alvotech og Vísindagörðum. Ef af verður er gert ráð fyrir að sú starfsemi hefjist á haustmánuðum 2025. Einnig var unnið að gerð viljayfirlýsingar milli Vísindagarða og Alvotech um að þessi starfsemi eða hluti hennar flytjist í Djúptæknisetur þegar það opnar. 

Markaðs- og kynningarmál

Mörkun og ásýnd Vísindagarða var tekin í gegn á árinu 2023 en sú vinna hélt áfram á árinu 2024. Lógó Vísindagarða lifnaði t.a.m. við. Í völdu markaðsefni sveigist það og beygist og tekur á sig ýmis form. Þannig er tákngerður sveigjanleiki og fjölbreytileiki viðfangsefnanna.

Kynningarteymið hefur rekið sig á nokkrar áskoranir í að miðla því hvað Vísindagarðar eru og gera. Til að mæta þeirri áskorun var ákveðið að búa til nokkur styttri myndbönd sem fjalla um ábúendur á Vísindagörðum á þeirra eigin forsendum. Hugmyndin er að þannig megi draga upp eins konar mósaíkmynd af lífinu og starfinu á svæðinu. Stuttar myndir (um 2 mín.) hafa verið gerðar um Mýrina, Georg jarðvarmaklasa og Auðnu tæknitorg. Nú í vor verður lokið við sambærilegar myndir um Alvotech og Grósku. Myndirnar eru sýndar á vef Vísindagarða en einnig á samfélagsmiðlum og viðburðum. Auk þess var unnið myndband á ensku fyrir MIPIM ráðstefnuna í Cannes sem mun nýtast víðar gagnvart erlendum hag- og samstarfsaðilum.

Mýrin, nýsköpunarsetur

Breytingar á Mýrinni héldu áfram á árinu í samstarfi við hönnunarstofuna M-Studio. Lagt var upp með að bæta aðgengi að Mýrinni fyrir gesti og ná fram betri tengingu við aðra starfsemi í Grósku. Merkingar hafa verið bættar.

Áframhaldandi vinna er í gangi við að greina og þróa aðstöðuna í Mýrinni til að mæta þörfum samfélagsins hverju sinni og mæta þeim samdrætti sem orðið hefur í leigu fastra borða. 

Við afgreiðslu fjárhagsáætlunar fyrir árið 2025 samþykkti stjórn Vísindagarða að bæta við einu stöðugildi vegna aukinna umsvifa í rekstri félagsins. Er gert ráð fyrir að nýr starfsmaður taki að sér, auk annarra verkefna, rekstur Mýrarinnar og markaðssetningu hennar.

Háskólinn hefur eflt mjög starfsemi Sprotamýri og tekið þennan þátt í starfsemi Mýrarinnar fastari tökum. .

  Föstudagskaffi Mýrarinnar blómstrar. Það er alla föstudaga nema sumarmánuðina. Þar eru kynningar bæði utanaðkomandi sem og leigjenda í Mýrinni. Efla þessar stuttu stundir mjög tengsl og miðla fróðleik.

Mikil vinna hefur verið lögð í að einfalda öll tæknimál í Mýrinni á árinu. Mun þráðlaust net færast frá HÍ til Vísindagarða og settir upp nýir beinar í rýmið til að bæta þráðlaust net, en talsverð vandræði hafa verið með rekstur þess. Er það allt gert í nánu samráði við upplýsingasvið Hí. Einnig verður tekið upp nýtt skráningar- og bókunarkerfi, Office R&D.

Viðburðir

Umferðin & okkar daglega líf
Vísindagarðar HÍ hafa staðið fyrir viðburðaröð um samgöngumál í samstarfi við Vatnsmýrarhópinn svokallaða. Markmiðið með viðburðunum var að efna til samtals um samgöngur í okkar nærumhverfi. Vísindagarðar vildu leggja sitt af mörkum í þeirri miklu umræðu sem nú á sér stað um þróun samgöngumála og hvernig aðrir kostir en einkabíllinn gætu verið hagkvæmari. Horft var með lausnamiðuðum gleraugum til framtíðar. Síðasti viðburðurinn var partur af dagskrá Hönnunarmars í apríl 2024. 

Viðburðirnir fóru fram í Grósku og var þar af nægu að taka, fyrirtæki kynntu vörur sínar á fyrstu hæð Grósku framan við gróðurvegg og í fyrirlestrasal voru fjöldi erinda og pallborðsumræður um virka ferðamáta, aðra möguleika í samgöngum rætt um skipulagsmál í tengslum við samgöngur og fleira. Fjölmenni var í húsinu og áhugaverð umræða skapaðist í salnum. 

Nýsköpunarvika
Vísindagarðar tóku virkan þátt í Nýsköpunarvikunni. Aðgangspassar að hátíðinni eru afhentir í Mýrinni og samhliða því var óformleg dagskrá þann dag á okkar vegum. Þá fengu leigjendur í Mýrinni aðgangspassa að Nýsköpunarvikunni gegnum Vísindagarða, en það er hluti af samningi um styrk við hátíðina.

Hönnunarmars
Vísindagarðar voru með innlegg í fund borgarstjóra í ráðhúsinu þar sem að farið var yfir uppbyggingarmál borgarinnar. Þórey Einarsdóttir, framkvæmdastjóri, kynnti Vísindagarða, mögulega uppbyggingu þar og fyrirætlanir okkar um að byggja Djúptæknisetur. Alvotech tók einnig þátt í fundinum svo Vísindagarðar voru mjög sýnilegir þar. Var fundurinn vel sóttur og mjög margir fylgdust með í streymi. 

Tengslatorg 
Talsvert samstarf var við Tengslatorg HÍ. Samstarfssamningur er í gildi en lagt var upp með koma á frekari tengingu á milli Tengslatorgs og KLAK.  Opnunarviðburðurinn fór fram mánudaginn 3. febrúar í Grósku í Vatnsmýrinni og boðið var upp á fjölbreytta dagskrá þar sem nemendur gátu kynnt sér nýsköpunartækifæri og hvernig hægt er að nýta þau í atvinnulífinu.