Fjölmenni á kynningarfundi um Djúptæknikjarna
Vísindagarðar HÍ stóðu fyrir opnum kynningarfundi um Djúptæknikjarna í Vatnsmýri á dögunum. Greinilegt var að efni fundarins vakti áhuga þar sem fjöldi manns sóttu hann í fyrirlestrasal Grósku.
Sigríður Valgeirsdóttir, skrifstofustjóri í Háskóla-, iðnaðar og nýsköpunarráðuneytinu, sagði djúptæknikjarnann styðja við metnaðarfull markmið um rannsóknir, þróun og nýsköpun á Íslandi. Til að ná þeim þurfi að vinna saman í því að nota þá innviði sem eru til staðar á landinu. Þetta muni meðal annars hafa þau áhrif að við stöndum betur í alþjóðlegu samhengi.
Sigurður Magnús Garðarsson, stjórnarformaður Vísindagarða HÍ, sagði markmiðið að búa til suðupott nýsköpunar með því að leiða háskóla, rannsóknarstofnanir og tæknifyrirtæki saman. Mótun Djúptæknikjarna sé í takt við stefnu stjórnvalda um að rannsóknarinnviðir sem ríkið fjármagnar séu öllum aðgengilegir. Umgjörðin um þá sé þannig að hver sem er geti nýtt þá gegn réttu gjaldi. Djúptæknikjarnar finnist víða um heim og horft sé til þeirra til að sjá hvaða rekstrarform og fleira henti íslenskum aðstæðum.
Fyrr í vikunni stóðu Vísindagarðar HÍ og Háskóli Íslands einnig fyrir fundi innan HÍ, þar sem Jón Atli Benediktsson, rektor kynnti hugmyndina og sagði m.a. „Fyrirhugaður djúptæknikjarninn býður upp á mjög mikla möguleika til þverfaglegar samvinnu sem teygir sig inn á öll fræðasvið. Hugmyndin byggir jafnframt á núverandi stefnu Háskóla Íslands, þ.e. að efla grunnrannsóknir og fjölga birtingum vísindagreina ásamt því að bæta aðstöðu skólans og starfsfólks til að taka þátt í alþjóðlegu og innlendu samstarfi."
Hans Guttormur Þormar, verkefnisstjóri Djúptæknikjarna, fjallaði um hugmyndafræðina sem unnið er eftir í verkefninu og þverfaglega samvinnu háskóla, stofnana og fyrirtækja. Hann fór einnig yfir innleiðingu hugbúnaðarins Open IRIS, sem er skráningar- og aðgangsstýringarkerfi fyrir rannsóknar- og þróunarinnviði á Íslandi.
Þá fóru einnig fram pallborðsumræður þar sem Ásþór Tryggvi Steinþórsson, verkfræðingur hjá Reon og frumkvöðull, lýsti meðal annars reynslu sinni af djúptæknikjarna í Hollandi og hversu mikilvægur aðgangur að innviðum reyndist hans verkefni.
Ásta Sóllilja Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Klak - Icelandic Startups, sagði gríðarleg tækifæri felast í aðstöðunni og aðgangnum að tækjabúnaði sem býðst í Djúptæknikjarnanum. Bæði fyrir sprotafyrirtæki og í hvatningunni fyrir vísindamenn sem sinna grunnrannsóknum. Þetta gæti gæti orðið forsenda þess að stofna vísissjóð sem fjárfesti í þessum geira.