Umferðin & okkar daglega líf. Vel sóttur viðburður Vísindagarða
Það var fjölmenni á fyrsta fundinum í viðburðaröð Vísindagarða, Umferðin og okkar daglega líf þann 14. febrúar síðastliðinn í Grósku. Margir fluttu erindi og áhugaverð umræða skapaðist í salnum. 66°N, Berlín, Hopp, Pikkoló, Samtök um bíllausan lífsstíl, Strætó, Örninn og fleiri kynntu vörur og þjónustu í anddyri. Lífleg stemmning skapaðist meðal fundargesta sem nutu veitinga og skiptust á skoðunum.
Gísli Marteinn opnaði fundinn, en hann verður fundarstjóri á öllum viðburðunum. Hann rifjaði upp hve margt hefur í breyst frá því að hann kom inn í borgarstjórn árið 2002 og lét til sín taka í skipulags- og samgöngumálum. Gísli er menntaður í Borgarfræðum frá Edinborgarháskóla og samgönguskipulagi frá Harvard Graduate School of Design og hefur haft mikil áhrif á umræðuna um aðra valkosti en einkabílinn.
Rakel Anna Boulter forseti Stúdentaráðs kynnti stefnu ráðsins og þá kröfu að HÍ hætti að niðurgreiða bílastæði á háskólasvæðinu. Hún ræddi um U-passa fyrir stúdenta sem hvatningu til þess að nýta fjölbreytta ferðamáta.
Ragnheiður Einarsdóttir frá Strætó kynnti þjónustu og nýtingu á háskólasvæðinu í tölum. 29 vagnar á klukkustund á annatíma og 785 innstig á sólarhring við Hringbraut. Það eru þó mikil sóknarfæri og breytingar með tilkomu Borgarlínu munu bæta þjónustuna til muna.
Þorsteinn R. Hermannsson kynnti Samgöngusáttmálann og áform Betri samgangna sem eru sameignarfélag allra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Borgarlína, brú yfir Fossvog og Miklabraut í stokk eru á meðal verkefna sem munu hafa áhrif á þróun samgangna. Í hverri viku fjölgar íbúum á höfuðborgarsvæðinu um 90 manns og plássið sem bílar taka eykst gríðarlega
Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur sýndi í erindi sínu Sókn eftir skjóli, hvernig hönnun, skipulag og gróður hefur mikil áhrif á vindhraða og gæði útivistar. Hann benti einnig á mikilvægi þess að nýta heitt affallsvatn til þess að bræða klaka á göngu- og hjólastígum. Það skiptir sköpum.
Búi Bjarmar, hönnuður og hlaðvarpsstjóri Hjólavarpsins fór á kostum og kitlaði hláturtaugar gesta í sal svo um munaði. Hann lagði áherslu á hjólreiðar og jákvæðan fylgifisk þeirra: bætta heilsu. Hann kynnti þó einnig sláandi niðurstöður, en aldurshópurinn 18-24 er sá hópur sem notar hjólið minnst!