Farið yfir kraftmikla starfsemi Vísindagarða á aðalfundi

Aðalfundur Vísindagarða Háskóla Íslands var haldinn í apríl þar sem farið var yfir árangursríkt ár.

Stjórn Vísindagarða Háskóla Íslands. Kristinn Aspelund, Arna Hauksdóttir, Sigurður Magnús Garðarsson formaður, Linda Jónsdóttir og Óli Jón Hertervig.  Á myndina vantar fyrsta varamann, Önnu Sigríði Ólafsdóttur og annan varamann Stefán Þór Helgason. 

Sigurður Magnús Garðarsson formaður stjórnar.

Sigurður Magnús Garðarsson formaður stjórnar Vísindagarða Háskóla Íslands skýrði frá hag félagsins og rekstri þess á liðnu starfsári á aðalfundi í apríl. Hér að neðan er stiklað á stóru yfir það sem kom fram en hægt er að skoða árskýrssluna nánar hér.

Hlutverk Vísindagarða er að vera tengslatorg nýsköpunar. Áherslusviðin eru upplýsingatækni, lífvísindi, orka og sjálfbærni. Framtíðarsýnin er sú að þessi suðupottur nýsköpunar leiði framþróun og skapi virðisauka fyrir land og þjóð.

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands ávarpaði fundinn undir liðnum önnur mál.

Annar áfangi hátækniseturs Alvotech var opnaður 19. mars. Bygging og innréttingar þessa glæsilega húss tóku aðeins tvö og hálft ár. Skrifað var undir viljayfirlýsingu milli Háskólans, Reykjavíkurborgar og Grósku um byggingu Visku, nýs hugmyndahúss og frumkvöðlaseturs við hlið Grósku og stendur yfir leit að kjölfestuleigjendum.

Umræður við Reykjavíkurborg varðandi Randbyggð við Hringbraut hafa gengið vel. Stefnt er að því að reisa tvö vestustu húsin og verið er að ljúka deiliskipulagi fyrir þau.

Þessi mynd sýnir á myndrænan hátt uppbyggingu og þróun á lóðum og svæði Vísindagarða HÍ í Vatnsmýrinni

Djúptæknikjarni

Unnið var áfram að undirbúningi mögulegrar byggingar fyrir Djúptæknikjarna á lóð Vísindagarða, að Bjargargötu 3. Djúptæknikjarninn snýst um rými til rannsókna og opna rannsóknainnviði.

Djúptæknikjarni tengist einnig verkefninu Rannsóknainnviðir á Íslandi sem hlaut styrk úr Samstarfssjóði háskólanna og er hluti af sameiginlegri stefnu stjórnvalda, Háskóla Íslands og Tækniþróunarsjóðs. Það snýst um skráningu innviða, að draga saman á einn stað háskóla, stofnanir og fyrirtæki til samvinnu og samnýtingar tækjabúnaðar.

Blómlegt mannlíf í Mýrinni

Nýsköpunarsetur Vísindagarða HÍ, Mýrin, er fjölbreytt samfélag fyrirtækja, sportafyrirtækja og frumkvöðla staðsett í Grósku. Nándin við háskólann, aðra sprota og leiðandi fyrirtæki í þekkingariðnaðinum hefur skapað blómlegt mannlíf og liðkað fyrir tengslamyndun.

Í samstarfi við Háskóla Íslands og Alvotech er stefnt er á að koma á rannsóknasetri/nýsköpunarsetri að Klettagörðum 6 með sama rekstrarfyrirkomulagi og í Mýrinni. Þar sem tveir eða þrír kjölfestuaðilar hafa aðstöðu og sprotafyrirtæki geti einnig leigt aðstöðu.

Þórey Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Vísindagarða HÍ, Magnús Diðrik Baldursson, skrifstofustjóri, Ingibjörg Gunnarsdóttir, aðstoðarrektor vísinda og fundarstjóri.

Nýr vefur, stjórn og starfsfólk

Nýr vefur Vísindagarða var settur í loftið þar sem verkefnum og styrkjum félagsins eru gerð góð skil. Þar er einnig ársskýrsla Vísindagarða 2023 aðgengileg. Aukin áhersla er lögð á að segja fréttir af starfsemi Vísindagarða og er þar unnið í samstarfi við fyrirtæki í Nýsköpunarsetrinu.

Stjórn félagsins var kjörin á aðalfundi og hana skipa Sigurður Magnús Garðarsson, formaður, Arna Hauksdóttir, Linda Jónsdóttir, Kristinn Aspelund og Óli Jón Hertervig,  Fyrsti varamaður er Anna Sigríður Ólafsdóttir og annar varamaður Stefán Þór Helgason. 

Hrólfur Jónsson stígur til hliðar sem framkvæmdastjóri og tekur við formennsku í byggingarnefnd Djúptæknikjarna. Þórey Einarsdóttir tekur við framkvæmdastjórastöðunni. Þá var Lára Kristín Stefánsdóttir ráðin sem verkefnastjóri Djúptæknikjarna.

Reykjavík Science City

Vísindagarðar eru hluti af markaðs- og kynningarverkefninu Vísindaþorpið í Vatnsmýri eða Reykjavik Science City. Íslandsstofa stýrir því en auk þess eru í verkefnastjórn aðilar frá Reykjavíkurborg, Háskóla Íslands, Háskólanum í Reykjavík, Landspítala og Vísindagörðum.

Tilgangur verkefnisins er að stuðla að því að Ísland verði eftirsóttur staður til rannsókna, þróunar og fjárfestinga auk þess að laða erlend fyrirtæki og sérfræðinga til landsins. Í Vísindaþorpinu verður lögð áhersla á uppbyggingu svokallaðrar grænnar og blárrar tækni og lífvísinda.

Jonas Karlberg, doktorsnemi, sagði á fundinum frá doktorsverkefni sínu sem er eitt þeirra sem Vísindagarðar styrkja.

Forrige
Forrige

Frábær vinnuaðstaða fyrir frumkvöðla í Mýrinni

Næste
Næste

Vísindagarðar HÍ og Græni iðngarðurinn bjóða frumkvöðlum aðstöðu til nýsköpunar