Framkvæmdir

Á lóð Vísindagarða eru núna sex byggingar. Vísindagarðar Háskóla Íslands ehf. keyptu Sturlugötu 8 árið 2013 en þar er Íslensk erfðagreining með höfuðstöðvar. Auk Íslenskrar erfðagreiningar er Lífvísindasetur Háskóla Íslands með starfsemi í húsinu.

Félagsstofnun stúdenta tók Oddagarða í notkun 2013, en það eru fjögur hús við Sæmundargötu. Þessi hús eru með um 300 íbúðaeiningar. Markmið Vísindagarða er að blanda saman námi, vinnu, búsetu og leik á lóðinni og samstarf við stúdenta er liður í þeirri áætlun.

Í júní 2016 tók Alvotech formlega í notkun nýtt Hátæknisetur að Sæmundargötu 15-19. Í húsnæðinu er núna þróuð samheitarlíftæknilyf, auk þess sem höfuðstöðvar alþjóðlega lyfjafyrirtækisins Alvogen eru í byggingunni. Nú eru rúmlega 200 manns með aðstöðu í húsinu.

Í mars 2017 hófust miklar jarðvegsframkvæmdir á lóð Vísindagarða. Reist verða tvö ný hús auk þess sem nýjar götur verða lagðar á lóðinni. Um er að ræða nýtt hús sem mun rís að Bjargargötu 1 (áður Sturlugata 6), byggingin verður samtals 17.500 fermetrar að stærð auk bílakjallara. Um mitt ár 2017 mun Félagsstofnun stúdenta hefja framkvæmdir við að reisa rúmlega 10.000 fermetra byggingu á horni Sæmundargötu og Eggertsgötu.

Að Bjargargötu 1, sem er lóð vestan við hús Íslenskrar erfðagreiningar, mun rísa ný bygging sem einkum mun hýsa fyrirtæki í upplýsinga og fjarskiptatækni. CCP myndar kjölfestu í þessu húsi. Byggingin ber nafnið Gróska – hugmyndahús, en það er í eigu kjölfestufjárfesta CCP. Húsið verður fullbúið og tekið í notkun á fyrsta ársfjórðungi 2019. Nánari upplýsingar um þessa byggingu veitir Árni Geir Magnússon 663-1222 arni@groska.is og nánari upplýsingar eru á vefsíðunni Groska.is.

Fyrsta skóflustunga að nýju húsnæði stúdenta að Sæmundargötu 23 var tekin 26. júní 2017. Gert er ráð fyrir að verkinu ljúki í árslok 2019. Í þessari nýju byggingu stúdenta verða um 230 íbúðaeiningar, skv. áætlun.